Æskan 9-0 FC Heavyweight
Æskan og FC Heavyweight mættust í 2. umferð Kjarnafæðideildarinnar. Sölvi Andrason kom Æskunni yfir snemma leiks en að öðru leyti var leikurinn nokkuð jafn og spennandi framan af. Birgir Viktor Hannesson og Haraldur Örn Hansen bættu við tveimur mörkum fyrir Æskuna síðar í fyrri hálfleik og staðan var því 3-0 í hálfleik. Í síðari hálfleik setti Æskan í fluggírinn og bætti við 6 mörkum. Fyrst skoraði Gauti Freyr Guðbjatsson, þá Jakob Atli Þorsteinsson, næst Sölvi Andrason sitt annað mark í leiknum, og loks þeir Bjarki Kristjánsson, Sindri Vésteinsson og Gunnar Þórir Björnsson á lokamínútunum. Æskan hefur komið sér upp fyrnasterku liði og stimplaði sig á topp deildarinnar með þessum sigri, en FC Heavyweight er búið að mæta tveimur afar erfiðum andstæðingum og leitar að sínum fyrstu stigum í deildinni.
FC Samba 2-1 Héðinn FC
Leikur FC Samba og Héðins FC var hörkuspennandi frá upphafi til enda. Markakóngur síðasta tímabils, Alexander Arnar Þórisson, er genginn til liðs við nýtt lið FC Samba og kom hann liðinu yfir á 9. mínútu. Allt stefndi í að FC Samba myndi leiða í hálfleik en Sævar Örn Kárason, leikmaður Héðins FC, var á öðru máli. Hann jafnaði leikinn á 24. mínútu og staðan í hálfleik 1-1. Sama spenna ríkti í leiknum allan síðari hálfleikinn. Að lokum var það Ingi Þór Stefánsson sem skoraði sigurmark FC Samba fjórum mínútum fyrir leikslok. Frábær sigur hjá FC Samba sem er með fullt hús stiga eftir tvær umferðir, en Héðinn FC átti svo sannarlega skilið að fá eitthvað útúr þessum leik. Leikurinn var prúðmannlega leikinn í alla staði.
FC Böggur 2-1 FC Mývetningur
Það var alveg ljóst fyrirfram að leikur FC Böggur og FC Mývetningur yrði jafn og spennandi enda eru þetta tvö af betri liðum síðasta tímabils úr Kjarnafæðideildinni. Það tók FC Böggur einungis fjóra og hálfa mínútu að skora fyrsta mark leiksins, og var þar að verki reynsluboltinn Georg Fannar Haraldsson eftir snarpa sókn og lipurt samspil. Eftir þetta sóttu Mývetningar í sig veðrið og jöfnuðu leikinn verðskuldað á 12. mínútu með marki frá Hirti Gylfasyni. Á lokamínútu fyrri hálfleiks kom Karl Ólafur Hinriksson FC Böggur yfir með öðru marki sínu í jafn mörgum leikjum, og staðan í hálfleik því 2-1 fyrir FC Böggur. Mývetningar sóttu meira í síðari hálfleik í leit sinni að jöfnunarmarkinu. Fjórum mínútum fyrir leikslok fengu Mývetningar dæmda vítaspyrnu. Markvörður Mývetninga tók vítaspyrnuna en skot hans fór naumlega framhjá markinu. FC Böggur hélt fengnum hlut og tók öll stigin úr þessum spennuleik.