Síðasti leikur Kjarnafæðimótsins 2018 var viðureign KA 2 og Dalvíkur/Reynis í Boganum. Leikurinn fór rólega af stað og skiptust liðin á að sækja en lítið um marktækifæri.
Á 21. mínútu fékk Áki Sölvason boltann inní teig Dalvíkurmanna, leikur þar á varnamann og setur boltann snyrtilega í markið. KA menn tóku völdin eftir þetta og bættu við marki á 32. mínútu þegar Trausti Eiríksson náði ekki að koma boltanum í burtu og Frosti Brynjólfsson komst á milli og negldi boltanum uppí þaknetið, 2-0 fyrir KA. KA menn héldu áfram að sækja af krafti og uppskáru þriðja markið í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Angantýr átti sendingu á Patrek Hafliða Búason sem átti hnitmiðað skot fyrir utan teig í fjærhornið. Hálfleikstölur 3-0 fyrir KA. Dalvíkurmenn höfðu átt nokkra góða spretti en ekki náð klára sín færi með skoti.
Seinni Hálfleikur byrjaði með látum þar sem Patrekur Búason skoraði sitt annað mark og það var af dýrari gerðinni. Hnitmiðað skot fyrir utan teig, sláin inn. KA menn voru ekki hættir og bættu við fimmta markinu á 59. mínútu þegar brotið er á Frosta Brynjólfsyni inní teig. Brynjar Ingi Bjarnason fór á punktinn og setti hann á mitt markið. Dalvík/Reynir fékk síðan tvö góð færi á næstu mínútum en skalli frá Jóhanni Erni var varinn og skot frá Fannari Malmquist fór rétt framhjá stönginni. Þeim var fljótlega refsað fyrir að nýta ekki þessi færi því á 66. mínútu skoraði Patrekur sitt þriðja mark eftir góða stungusendingu frá Frosta og renndi honum framhjá Davíð í marki Dalvíkur/Reynis. Sjö mínútum síðar ákvað Patrekur að endurgjalda Frosta sendinguna áðan og sendi Frosta einan í gegn. Hann var ekki í neinum vandræðum og kom KA í 7-0. Dalvíkingar komust á blað á 78. Mínútu. Dalvík/Reynir átti aukaspyrnu útá hliðarlínu sem Fannar Malmquist skallaði fyrir fæturna á Brynjari Skjóldal sem skoraði af stuttu færi. Það voru samt KA menn sem áttu síðasta orðið í leiknum. Kristján Már var sparkaður niður í teig Dalvíkur/Reynis og víti dæmt. Angantýr Máni fór á punktinn og skoraði. Lokatölur 8-1, verðuskuldaður sigur KA 2 sem endaði með fullt hús stiga á toppi riðils 2.
Maður leiksins: Patrekur Hafliði Búason (KA 2), 3 mörk og 1 stoðsending.
KA 2 8 – 1 Dalvík/Reynir
1-0 21’ Áki Sölvason
2-0 32’ Frosti Brynjólfsson
3-0 45’ Patrekur Hafliði Búason
4-0 47’ Patrekur Hafliði Búason
5-0 60’ Brynjar Ingi Bjarnason (víti)
6-0 66’ Patrekur Hafliði Búason
7-0 73’ Frosti Brynjólfsson
7-1 77’ Brynjar Skjóldal Þorsteinsson
8-1 89’ Angantýr Máni Gautason (víti)