Tilkynning frá mótsstjórn Kjarnafæðideildarinnar

Eftir leik KS og Hata í 8. umferð Kjarnafæðideildarinnar sem fram fór miðvikudaginn 9. ágúst barst mótsstjórn Kjarnafæðideildarinnar ábending um að KS hefði hugsanlega teflt fram ólöglegum leikmanni í leiknum. Mótsstjórn KDN tók málið fyrir, aflaði sér upplýsinga um viðkomandi leikmann og gaf KS færi á því að skýra sína hlið á málinu.

Niðurstaða mótsstjórnar KDN er sú að leikmaðurinn sem um ræðir, Hilmir Símonarson, hafi verið ólöglegur í ljósi þess að hann hefur leikið með KF í 3. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu í sumar. Úrslitum leiks KS og Hata hefur því verið breytt og sigrar Hati því leikinn 3-0.

Að gefnu tilefni vill mótsstjórn Kjarnafæðideildarinnar koma því á framfæri að mótsstjórnin sjálf fer ekki yfir leikmannalista liðanna að umferðum loknum og athugar hvort þar finnist leikmenn sem sökum þátttöku sinnar í efstu til þriðju deild í Íslandsmótinu í knattspyrnu séu ólöglegir í leikjum Kjarnafæðimótsins. Forráðamenn liða deildarinnar hafa aftur á móti fengið mjög skýrar upplýsingar um það hvaða reglur gilda í mótinu og það er alfarið á ábyrgð liðanna sjálfra að tefla ekki fram ólöglegum leikmönnum. KDN skoðar allar ábendingar um þátttöku ólöglegra leikmanna gaumgæfilega og úrskurðar í slíkum málum í samræmi við reglur Kjarnafæðideildarinnar í knattspyrnu.

Virðingarfyllst,
Mótsstjórn Kjarnafæðideildar KDN

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *