Innanfélagsviðureign fór fram í Kjarnafæðimótinu þar sem meistaraflokkur KA tók á móti liði KA 3. Ljóst var strax frá byrjun að verkefnið yrði mjög erfitt fyrir KA 3, þrátt fyrir að liðið skipi margir mjög efnilegir knattspyrnumenn. Á 8. mínútu fékk KA aukaspyrnu og KA 3 tókst með naumindum að verja á línu. Út frá því komust leikmenn KA 3 í skyndisókn sem endar með því að Þröstur Mikael Jónasson leggur boltann í markið og kemur KA 3 mjög óvænt yfir í leiknum. Forysta KA 3 varði í 6 mínútur, en þá á Ásgeir Sigurgeirsson skalla sem berst til Áka Sölvasonar, en hann kláraði færið vel og jafnaði metin í 1-1. KA hélt eftir þetta áfram að halda boltanum vel en KA 3 gekk ágætlega að verjast. Á 39. mínútu á Baldvin Ólafsson sending á Áka Sölvason sem skorar fyrir KA og kemur þeim yfir. Staðan í hálfleik var 2-1, KA í vil.
Þrátt fyrir að hafa staðið sig vel á löngum köflum í leiknum þyngdist róðurinn hjá KA 3 þegar líða tók á síðari hálfleikinn. Á 65. mínútu fékk KA hornspyrnu sem Ólafur Aron Pétursson tók. Boltinn barst að miðjum vítateig KA3 þar sem Baldvin Ólafsson skoraði með laglegu skoti. Áki Sölvason, sem hefur svo sannarlega verið magnaður í Kjarnafæðimótinu í ár, kláraði leikinn fyrir KA með því að skora þrú mörk til viðbótar á 6 mínútna kafla, frá 69. til 75. mínútu. Að lokum var það Ívar Örn Árnason sem skoraði síðasta mark KA í leiknum þegar 10 mínútur voru til leiksloka. KA vann því verðskuldaðan sigur í leiknum, 7-1, þrátt fyrir að leikmenn KA 3 hafi staðið sig vel á löngum köflum í leiknum.
Maður leiksins: Áki Sölvason (KA)
1-0 9. mín Þröstur Mikael Jónasson
1-1 15. mín Áki Sölvason
1-2 39. mín Áki Sölvason
1-3 65. mín Baldvin Ólafsson
1-4 69. mín Áki Sölvason
1-5 71. mín Áki Sölvason
1-6 75. mín Áki Sölvason
1-7 80. mín Ívar Örn Árnason