KF og Völsungur mættust í fyrsta leik helgarinnar í Kjarnafæðimótinu. Leikurinn fór fjörlega af stað og ekki leið á löngu þar til mörg góð færi litu dagsins ljós. Strax á 6. mínútu átti Sævar Olgeirsson, leikmaður Völsungs, gott skot utan af vítateigslínu sem hafnaði í markinu. Staðan orðin 1-0 fyrir Völsung. Forysta Völsungs lifði þó ekki lengi þar sem Hilmir Gunnar Ólason jafnaði metin fyrir KF á 19. mínútu með flottu skoti utan vítateigs. Þremur mínútum síðar hefði KF getað komist yfir en Alexander Gunnar Jónasson í marki Völsungs varði vel. Arnþór Hermannsson kom Völsungi svo aftur yfir með mjög hnitmiðuðu skoti inni í vítateig KF. Staðan í hálfleik var því 2-1 fyrir Völsung.
Í síðari hálfleik gekk leikmönnum Völsungs betur að skapa sér marktækifæri, en þeir fengu dauðafæri á 64. mínútu sem fór forgörðum. Á 75. mínútu skoraði Sævar Olgeirsson sitt annað mark í leiknum þegar hann lagði boltann í netið af stuttu færi inni í vítateig KF. Þegar komið var fram í uppbótartíma innsiglaði Gunnar Sigurður Jósteinsson, sem hafði komið inn af varamannabekk Völsunga, sigurinn með góðu skallamarki eftir hornspyrnu. Lokatölur urðu 4-1 fyrir Völsung og verður sigur Húsvíkinga að teljast sanngjarn.
Maður leiksins: Sævar Olgeirsson (Völsungur)
0-1 6. mín Sævar Olgeirsson
1-1 19. mín Hilmir Gunnar Ólason
1-2 Arnþór Hermannsson
1-3 75. mín Sævar Olgeirsson
1-4 90+2 mín Gunnar Sigurður Jósteinsson