Þórsarar byrjuðu leikinn talsvert betur, og komust yfir á 10. mínútu leiksins. Þeir áttu þá góða sókn upp vinstri vænginn. Kristinn Þór fékk þá góða sendingu fyrir aftan bakvörð Völsungs og lagði boltann út á Ármann Pétur Ævarsson, sem setti hann snyrtilega í netið. Eftir markið komst meira jafnvægi á leikinn og lítið var um opin marktækifæri. Leikmenn Völsungs héldu boltanum ágætlega aftarlega á vellinum en áttu í nokkru basli með að koma sér í góðar stöður á síðasta þriðjungi vallarins. Þórsarar beittu mikið löngum sendingum fram völlinn þar sem Jóhann Helgi var mjög drúgur í að vinna skallabolta, en oft vantaði Þórsara til að hirða upp seinni boltann.
Síðari hálfleikur byrjaði af sama krafti og sá fyrri af hálfu Þórsara. Á 54. mínútu kom löng sending upp vinstri vænginn sem Jóhann Helgi tók laglega niður og átti skot að marki Völsungs. Boltinn hafði viðkomu í varmarmanni Völsungs en barst þaðan til Ármanns Péturs sem skoraði annað mark Þórsara. Völsungur átti fá svör við leik Þórsara og tókst ekki að skora gegn skipulögðu liði Þórs. Lokatölur urðu því 2-0 fyrir Þór.
Maður leiksins: Ármann Pétur Ævarsson (Þór)
1-0 10. mín Ármann Pétur Ævarsson
2-0 54. mín Ármann Pétur Ævarsson