Kormákur/Hvöt sigraði Samherja – jafnt hjá Þór2 og KA3

Þór2 og KA3 gerðu markalaust jafntefli í B-deild Kjarnafæðimótsins í Boganum í gærkvöldi. Þór2 situr því áfram í 3. sæti deildarinnar með 5 stig meðan KA3 er sæti neðar með 4 stig – en bæði lið hafa leikið 3 leiki.

Á KA-vellinum mættust lið Kormáks/Hvatar og Samherja í spennandi leik á snævi þöktum vellinum. Kormákur/Hvöt byrjaði betur en Jónas Aron Ólafsson og Sigurður Bjarni Aadnegard komu liðinu í 2-0 með mörkum á 8. og 19. mínútu. Á 21. mínútu varð Björgvin Daði Sigurbergsson, leikmaður Samherja, fyrir því óláni að skora sjálfsmark og staðan því orðin 3-0. Leikmenn Samherja áttu sterka endurkomu því Eysteinn Bessi Sigmarsson minnkaði muninn á 27. mínútu, og svo skoraði Ágúst Örn Víðisson mark úr vítaspyrnu á þeirri 41. Staðan í hálfleik var því 3-2 og allt opið.

Í síðari hálfleiknum var það svo Árni Einar Adolfsson sem tryggði Kormáki/Hvöt 4-2 sigur með marki á 60. mínútu. Sá merkilegi atburður átti sér stað að þegar um 10 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma kom Björn Jökull Bjarkason inná í liði Kormáks/Hvatar – en faðir hans, varnarjaxlinn Bjarki Árnason, lék allan leikinn fyrir Kormák/Hvöt. Feðgarnir spiluðu því saman í rúmlega 10 mínútur. Þess má geta að Björn Jökull er fæddur árið 2006 og miðað við feril föður hans á hann sér glæsta framtíð í boltanum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *