KA varði Kjarnafæðimótstitilinn í karlaflokki með 5-1 sigri á nágrönnum sínum í Þór. Fyrirfram var ljóst að leikurinn hefði mikið að segja um það hvaða lið stæði uppi sem Kjarnafæðimótsmeistari þar sem KA myndi tryggja sér titilinn með sigri, en með sigri Þórs væri deildin í þeirra höndum fyrir lokaleik liðsins.
Nökkvi Þeyr Þórisson kom KA yfir á 32. mínútu leiksins, en Jakob Snær Árnason jafnaði metin fyrir Þórsara 6 mínútum síðar. Staðan í hálfleik var því jöfn, 1-1.
Leikurinn var í járnum allt þar til síðari hluta seinni hálfleiks. Á 68. mínútu kom varnarjaxlinn Hallgrímur Jónasson, fyrrverandi leikmaður Þórs, KA-mönnum yfir. Bjarki Þór Viðarsson, fyrrum leikmaður KA en núverandi leikmaður Þórs, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 83. mínútu og staðan því orðin 3-1 fyrir KA. Það var síðan á þriggja mínútna kafla undir lok leiksins sem Gunnar Örvar Stefánsson innsiglaði 5-1 sigur KA-manna með tveimur mörkum, og þar með eru KA-menn Kjarnafæðimótsmeistarar karla 2020.
Selt var inná leikinn og rann allur aðgangseyrir óskiptur til fjölskyldu Bjarna Hrannars Héðinssonar, knattspyrnudómara og formanns KDN, en hann hefur glímt við alvarleg veikindi að undanförnu og stendur frammi fyrir langri og strangri endurhæfingu. Vel var mætt á leikinn og söfuðust alls um 450.000 krónur. Knattspyrnudómarafélag Norðurlands þakkar knattspyrnuáhugafólki á Norðurlandi innilega fyrir stuðninginn við þetta góða málefni.