Þór2 og Samherji áttust við í opnunarleik B deildar karla í Kjarnafæðimótinu. Þórsarar stjórnuðu leiknum fyrstu mínúturnar en það voru aftur á móti leikmenn Samherja sem skoruðu fyrsta markið, en þar var að verki Ágúst Örn Víðisson. Þórsarar héldu áfram að stjórna leiknum eftir markið en þó án þess að skapa sér nein markverð færi.
Þegar 6 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik jafnaði Bjarni Guðjón Brynjólfsson metin. Þór2 áttu þá skot fyrir utan teig sem hafnaði í þverslánni en þaðan barst boltinn til Bjarna sem þrumaði boltanum upp í þaknetið. Staðan í hálfleik var jöfn, 1-1.
Á 49. mínútu leiksins sóttu Þór2 upp hægri vænginn og sendu boltann þaðan á Sigfús Fannar Gunnarsson sem var á fjærstönginni og renndi boltanum í markið. Þór2 komnir með forystuna. Þórsarar voru með sterk tök á leiknum eftir þetta en leikmenn Samherja vörðust vel.
Undir lok leiksins bætti Þór2 við tveimur mörkum. Fyrst gerðist það á 88. mínútu að Bjarki Gíslason sem var einn og óvaldaður á fjærstöng eftir hornspyrnu stangaði boltann í netið. Þegar tvær mínútur voru komnar framyfir venjulegan leiktíma slapp Elmar Þór Jónsson einn í gegnum vörn Samherja og lyfti boltanum skemmtilega yfir Friðrik Inga Þórðarson í markinu. Lokatölur voru því 4-1, sanngjarn sigur Þór2.