KA 2-1 Þór
0-1 23′ Bjarki Þór Viðarsson
1-1 67′ Elfar Árni Aðalsteinsson
2-1 76′ Elfar Árni Aðalsteinsson
KA-menn eru Kjarnafæðimótsmeistarar 2019 eftir 2-1 sigur á Þór í spennuleik í Boganum í kvöld. Leikurinn var í járnum framan af en á 23. mínútu slapp Bjarki Þór Viðarsson einn í gegnum vörn KA og þrumaði með föstu skoti upp í nærhornið, og kom Þórsurum þar með í 1-0. Þannig stóðu leikar í hálfleik.
Á 67. mínútu fékk Elfar Árni Aðalsteinsson sendingu inn að markteig Þórsara frá Hallgrími Mar Steingrímssyni og afgreiddi boltann snyrtilega í netið úr þröngu færi og jafnaði þar með leikinn, 1-1. Það var svo á 76. mínútu sem Hrannar Björn Steingrímsson fékk boltann út á hægri væng og sendi háa sendingu inná vítateiginn. Þar stökk Elfar Árni Aðalsteinsson manna hæst og stangaði boltann í mitt mark Þórsara. Þetta reyndist sigurmarkið í leiknum en KA-menn klára mótið með fullt hús stiga. Almarr Ormarsson, fyrirliði KA, veitti sigurlaununum viðtöku í leikslok.
Knattspyrnudómarafélag Norðurlands rukkaði 500 krónur inn á leikinn og söfnuðust alls 163.700 krónur. Öll upphæðin var afhent Grófinni geðverndarmiðstöð, en það voru Valdís Eyja Pálsdóttir forstöðumaður og Eymundur Eymundsson heiðursfélagi sem veittu peningunum viðtöku í hálfleik.