Dagana 11.-16. janúar fóru fram 6 leikir í Kjarnafæðimótinu. Magni, KA, Þór og Höttur/Huginn sigruðu sína leiki en Tindastóll og Þór2 gerðu jafntefli.
Völsungur 1-2 Magni (11. jan)
1-0 26′ Bjarki Baldvinsson
1-1 32′ Andri Snær Sævarsson
1-2 68′ Kristinn Þór Rósbergsson
Það voru Húsvíkingar sem tóku forystuna gegn Magna á 26. mínútu, en Magnamenn voru ekki lengi að svara fyrir sig í 6 mínútum síðar jafnaði Andri Snær Sævarsson metin. Hálfleikstölur voru 1-1. Það var svo um miðjan síðari hálfleik sem Kristinn Þór Rósbergsson tryggði Magna stigin 3 með því að skora sigurmarkið. Úrslitin 2-1 fyrir Magna.
KA 8-0 KA2 (12.jan)
1-0 9′ Elfar Árni Aðalsteinsson (vítaspyrna)
2-0 29′ Daníel Hafsteinsson
3-0 34′ Andri Fannar Stefánsson
4-0 42′ Hrannar Björn Steingrímsson
5-0 59′ Guðjón Pétur Lýðsson
6-0 63′ Guðjón Pétur Lýðsson
7-0 76′ Ýmir Már Geirsson
8-0 80′ Þorri Mar Þórisson
KA sýndi sínar allra sterkustu hliðar þegar liðið mætti 2. flokki félagsins í KA2. Eftir mark Elfars Árna úr vítaspyrnu á 9. mínútu leiksins tókst KA2 að halda KA nokkuð vel í skefjum og það var ekki fyrr en á 29. mínútu sem Daníel Hafsteinsson kom KA í 2-0. Eftir þetta opnaðist vörn KA2 meira og KA vann að lokum 8-0 sigur. Guðjón Pétur Lýðsson sem nýlega gekk til liðs við KA frá Val skoraði tvö marka leiksins og Andri Fannar Stefánsson sem kom sömu leið eitt mark. Aðrir markaskorarar voru Hrannar Björn Steingrímsson, Ýmir Már Geirsson og Þorri Mar Þórisson.
Þór2 1-1 Tindastóll (12.jan)
1-0 82′ Sigfús Fannar Gunnarsson
1-1 89′ Eysteinn Bessi Sigmarsson
Leikur Þórs2 og Tindastóls var í járnum frá upphafi til enda og létu mörkin standa á sér. Það var Sigfús Fannar Gunnarsson sem kom Þór2 yfir á 82. mínútu leiksins. Tindastóli tókst hins vegar að skora jöfnunarmark á 89. mínútu, en þar var á ferð Eysteinn Bessi Sigmarsson. Liðin þurftu því að sættast á skiptan hlut og úrslitin 1-1.
Leiknir F 0-2 Þór (13.jan)
0-1 85′ Sigurður Marinó Kristjánsson
0-2 90+4′ Jakob Snær Árnason
Leiknir F átti góðan leik gegn Þór og sá til þess að það ríkti spenna um úrslitin allt þar til á síðustu mínútu. Það var ekki fyrr en á 85. mínútu sem Sigurður Marinó Kristjánsson kom Þór yfir, og þegar fjórar mínútur voru komnar framyfir venjulegan leiktíma bætti Jakob Snær Árnason við öðru marki. Niðurstaðan var sigur Þórs, 2-0.
KF 0-4 Höttur (13.jan)
0-1 27′ Jakob Jóel Þórarinsson
0-2 50′ Marteinn Gauti Kárason
0-3 53′ Sæbjörn Guðlaugsson
0-4 68′ Aron Sigurvinsson
Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 27. mínútu þegar Jakob Jóel Þórarinsson kom Hetti/Hugin yfir. Ekki voru fleiri mörk skoruð í fyrri hálfleik og því leikurinn ennþá galopinn. Hattar/Huginsmenn gerðu hins vegar út um leikinn í fyrri hluta síðari hálfleiks með þremur mörkum, en þar voru að verki Marteinn Gauti Kárason, Sæbjörn Guðlaugsson og Aron Sigurvinsson. Leiknum lauk með 4-0 sigri Hattar/Hugins.
KA3 1-3 Dalvík/Reynir (16.jan)
0-1 11′ Atli Fannar Írisarson
0-2 54′ Gunnlaugur Rafn Ingvarsson
1-2 56′ Gunnlaugur Rafn Ingvarsson
1-3 89′ Sveinn Margeir Hauksson
Atli Fannar Írisarson skoraði fyrsta mark leiksins á 11. mínútu og kom hann þar með Dalvík/Reyni yfir. Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiks. Á 54. mínútu varð Gunnlaugur Rafn Ingvarsson, leikmaður KA3, fyrir því óláni að setja boltann í eigið net. Gunnlaugur var hins vegar ekki nema tvær mínútur að bæta upp fyrir það þegar hann minnkaði muninn fyrir KA3 í 2-1. Síðasta orðið átti Sveinn Margeir Hauksson þegar hann skoraði þriðja mark Dalvíkur/Reynis og tryggði liði sínu þar með 3-1 sigur.