Magni 1-0 Leiknir F
1-0 5’ Marinó Snær Birgisson
Magni og Leiknir F áttust við í A-riðli Kjarnafæðimótsins í fyrsta leik ársins 2019. Magnamenn voru ekki lengi að taka forystuna í leiknum því Marinó Snær Birgisson skoraði af stuttu færi eftir slæm mistök í vörn Leiknis strax á 5. mínútu leiksins. Eftir þetta var fyrri hálfleikur nokkuð rólegur. Leiknismenn fengu sitt fyrsta alvöru færi á 37. mínútu en Steinar Adolf Arnþórsson í marki Magna varði vel. Á lokamínútu fyrri hálfleiksins átti Magni skot í stöng, en fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleiknum og hálfleikstölur því 1-0 fyrir Magna.
Liðin skiptust á að sækja í síðari hálfleik. Á 50. mínútu áttu Leiknismenn gott skot að marki Magna en boltinn fór rétt framhjá markinu. Á 75. mínútu áttu Magnamenn skot sem Bergsteinn Magnússon í marki Leiknis varði mjög vel. Besta færi síðari hálfleiks kom þegar fimm mínútur voru til leiksloka en þá áttu Magnamenn skot í slá. Á lokamínútu leiksins fengu Leiknismenn aukaspyrnu rétt utan vítateigs, spyrnan var góð og fór á markið en Steinar í marki Magna sá við spyrnunni og tókst því að halda markinu hreinu. Lokatölur voru 1-0 fyrir Magna, sem tyllti sér á topp A-riðils með fullt hús stiga eftir tvær umferðir. Sigurinn verður að teljast sanngjarn þrátt fyrir að leikurinn hafi heilt yfir verið nokkuð jafn, en Magnamenn áttu 9 marktilraunir gegn 5 í leiknum.