Mývetningar vörðu bikarmeistaratitilinn!

FC Mývetningur er bikarmeistari Kjarnafæðideildarinnar 2018 eftir sigur á Æskunni í úrslitaleik í Boganum í kvöld, 2-0. Liðinu tókst þar með að verja bikarmeistaratitilinn og vinna keppnina annað árið í röð.

Leikið var í tveimur riðlum í bikarkeppninni að þessu sinni. FC Mývetningur, FC Samba og FC Böggur drógust saman í annan riðilinn en Héðinn FC, FC Heavyweight og Æskan í hinn. Í fyrri riðlinum sigruðu Mývetningar bæði FC Samba og FC Böggur 2-1, en Samba vann svo FC Böggur 1-0. Í síðari riðlinum sigraði FC Heavyweight í leik gegn Héðinn FC, 2-0. Æskan vann svo FC Heavyweight 3-0 og loks gerðu FC Héðinn og Æskan 2-2 jafntefli. Því var ljóst að FC Mývetningur myndi mæta FC Heavyweight í öðrum undanúrslitaleiknum en Æskan og FC Samba í hinum.

Í leiknum um 5. sætið sigraði FC Böggur gegn Héðinn FC, 2-1. Birgir Þór Þrastarson skoraði bæði mörk FC Böggur og reyndist það síðara vera sigurmark á lokamínútu leiksins.

Mývetningar sigruðu FC Heavyweight í fyrri undanúrslitaleiknum, 5-0. Í þeim síðari áttust Æskan og FC Samba við í hörkuleik, en eftir mikla baráttu hafði Æskan að lokum betur, 2-1.

Úrslitaleikur mótsins var því milli bikarmeistaranna frá því í fyrra, FC Mývetnings, og toppliðs Kjarnafæðideildarinnar að loknum 6 umferðum, Æskunnar. Bæði lið voru mjög vel skipulögð til baka og mikið um stöðubaráttur í leiknum. Þegar uppi var staðið reyndust Mývetningar þó beittari framávið og sigruðu leikinn með tveimur mörkum seint í síðari hálfleik. Æskan sótti án afláts en tókst ekki að vinna sig í gegnum sterka vörn FC Mývetnings. Lokatölur því 2-0 fyrir Mývetningum sem eru þar með bikarmeistarar Kjarnafæðideildarinnar annað árið í röð.

1. Sæti – FC Mývetningur
2. Sæti – Æskan
3.-4. Sæti – FC Heavyweight
3.-4. Sæti – FC Samba
5. Sæti – FC Böggur
6. Sæti – Héðinn FC

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *