Umfjallanir um leiki í 3. umferð Kjarnafæðideildarinnar

Þriðja umferð Kjarnafæðideildarinnar fór fram í Boganum í gærkvöldi. Héðinn FC og FC Böggur mættust í hörkuleik. Það var Sævar Eyjólfsson sem kom Héðinn FC yfir á 9. mínútu, en Karl Ólafur Hinriksson jafnaði metin fyrir FC Böggur sex mínútum fyrir hálfleik. Þar með hefur Karl skorað í öllum leikjum FC Böggur það sem af er tímabili. Staðan var því jöfn í hálfleik, 1-1. Eina mark síðari hálfleiks skoraði Sævar Eyjólfsson og tryggði þar með Héðinn FC þrjú dýrmæt stig, þau fyrstu sem Héðinn fær í þessu móti.

Leikur FC Samba og Æskunnar var ekki síður líflegur og spennandi. Æskan stjórnaði leiknum framan af og komst yfir með marki Sölva Andrasonar, en Alexander Arnar Þórisson jafnaði leikinn fyrir hálfleik og því jafnt í leikhléi. Árni Arngrímsson opnaði markareikning sinn í mótinu snemma í síðari hálfleik og kom þannig Æskunni aftur yfir. Gauti Freyr Guðbjartsson bætti við þriðja marki Æskunnar áður en Alexander Arnar skoraði sitt annað mark í leiknum og minnkaði muninn í 3-2. FC Samba reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn í lokin en Æskan hélt út og vann þannig gríðarlega mikilvægan 3-2 sigur á toppi deildarinnar.

Síðasti leikur kvöldsins var leikur FC Heavyweight og FC Mývetnings. Úr varð mikil markasúpa, en Mývetningar höfðu talsverða yfirburði í leiknum og unnu að lokum 11-1. Elvar Goði Yngvason og Hjörtur Jón Gylfason skoruðu hvor um sig fjögur mörk fyrir Mývetninga, og þeir Brynjar Örn Arnarsson, Jón Ásgeir Þorláksson og Kristján Garðarsson eitt mark hver. Mark FC Heavyweight skoraði Orri Þórsson, hans 2. mark í mótinu.

Eftir umferðina er Æskan í toppsæti deildarinnar með 9 stig eftir þrjár umferðir. FC Mývetningur og FC Samba hafa 6 stig, FC Böggur og Héðinn FC 3 stig og FC Heavyweight á botninum án stiga. Næsta umferð fer fram fimmtudaginn 28. júní.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *