Umfjallanir um leiki í 4. umferð Kjarnafæðideildarinnar

FC Böggur 1 – 3 FC Samba

Í fyrri hálfleik var bara eitt lið á vellinum. Sambamenn spiluðu brasilískan sambabolta, sköpuðu fullt af færum og skoruðu 3 góð mörk. Það fyrsta skoraði Símon Símonarson á 8. mínútu, svo Jón Heiðar Gestsson á þeirri 12. og loks Alexander Arnar Þórisson á þeirri 17. Í síðari hálfleik kom gjörbreytt Böggur-lið inná, barðist fyrir hverjum bolta og pressaði FC Samba hátt. Úr varð hraður og skemmtilegur baráttuleikur með færum á báða bóga. Birgir Þrastarson minnkaði muninn fyrir FC Böggur með mjög góðu skallamarki á 40. mínútu. Þrátt fyrir mikla baráttu urðu mörkin ekki fleiri og 3-1 sigur FC Samba staðreynd.

Héðinn FC 6 – 0 FC Heavyweight

Leikur Héðins FC og FC Heavyweight var nokkuð jafn framan af og gekk boltinn manna á milli. Atli Páll Gylfason og Hjörvar Már Aðalsteinsson komu Héðinn FC í 2-0 með því að skora sitt markið hvor í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik dró heldur af FC Heavyweight og leikmenn Héðins bættu við fjórum mörkum. Þar voru að verki þeir Atli Páll Gylfason (með sitt annað mark í leiknum), Alexander Smári Þorvaldsson, Sævar Eyjólfsson og Kristófer Þór Jóhannsson.

FC Mývetningur 1 – 1 Æskan

Leikur tveggja efstu liðanna í Kjarnafæðideildinni hófst með látum. Menn spiluðu hratt og nokkuð fast enda leikmenn beggja liða í hörkuformi. Þegar nokkuð var liðið á fyrri hálfleik var brotið á leikmanni Æskunnar innan vítateigs en vítaspyrnan fór framhjá markinu. Þremur mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks fékk Jakob Atli Þorsteinsson leikmaður Æskunnar góða sendingu inn á vítateiginn og kláraði færið vel. Staðan í hálfleik var því 1-0 Æskunni í vil. Síðari hálfleikur var ekki síður hraður heldur en sá fyrri. Á 37. mínútu jafnaði Hjörtur Gylfason metin fyrir Mývetninga. Liðin skiptust á að sækja eftir þetta en hvorugu liðinu tókst að bæta við marki og því sættust þau á skiptan hlut, 1-1.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *