KA lagði Leikni

KA og Leiknir F mættust í Kjarnafæðimóti KDN á fimmtudagskvöld. Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað og á fyrstu 5 mínútunum höfðu Leiknismenn komist tvisvar í vænlegar sóknir. KA voru þó sterkir í vörninni og engin hætta skapaðist. Menn spiluðu nokkuð fast í upphafi leiks og að loknum 8 mínútum var búið að dæma 6 leikbrot. Á tólftu mínútu leiksins áttu KA menn fyrsta skot á mark í leiknum en það var vel varið af Robert, markverði Leiknis. Hann kom þó engum vörnum við mínútu síðar er Frosti Brynjólfsson var skilinn eftir óvaldaður í teignum og afgreiddi fyrirgjöf örugglega í markið. Staðan 1-0 fyrir KA.

Liðin skiptust á að sækja en KA menn voru hættulegri í sínum aðgerðum. Á 22. mínútu átti Hrannar Björn Steingrímsson fallega sendingu fram á teiginn sem Elfar Árni Aðalsteinssson framlengdi með skalla í hægra markhornið. Virkilega fallegt mark. Og á 39. mínútu afgreiddi Steinþór Freyr Þorsteinsson fasta fyrirgjöf beint í markið við hægri markstöngina. Var einnig vel að því marki staðið. Staðan var því 3-0 fyrir KA þegar gengið var til leikhlés.

Í síðari hálfleik bjuggust margir við að KA menn myndu herða tökin og auka muninn en sú varð ekki raunin. Leiknismenn sýndu að lið þeirra hefur bæði styrk og úthald og gáfu ekkert eftir þótt varamennirnir þeirra væru bara tveir og því ekki hægt að vera með jafnmarga óþreytta menn í síðari hálfleik og KA. Til tíðinda í hálfleiknum bar það hæst að á 59. mínútu áttu KA menn hörkuskalla að marki sem var vel varinn og á 73. mínútu komust Leiknismenn í afar góða skyndisókn sem þó varð lítið úr. Síðari hálfleikur var mun prúðmannlegar leikinn en sá fyrri þótt það væri farið að draga af leikmönnum. Einungis 5 leikbrot voru dæmd í síðari hálfleik á móti 16 í þeim fyrri. En ekkert mark var skorað í síðari hálfleik og úrslit leiksins því sanngjarn sigur KA manna 3-0.

Maður leiksins var Robert Winogrodzki, markvörður Leiknis. Ekki vegna þess að hann hefði haft svo óskaplega mikið að gera en hann var sá leikmaður vallarins sem sýndi ítrekað eftirtektarverð tilþrif. Hann hélt sínu svæði vel, greip vel inn í og varði vel þegar á þurfti að halda. Óhræddur og öruggur.

Tölfræði:

KA – Leiknir F
Brot: 9-12
Skot að marki: 9-5
Þar af á mark: 4-3
Hornspyrnur: 6-5
Rangstaða: 1-1
Gul spjöld: engin

KA – Leiknir F
13‘ 1-0 Frosti Brynjólfsson
28‘ 2-0 Elfar Árni Aðalsteinsson
39‘ 3-0 Steinþór Freyr Þorsteinsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *