Önnur umferð Kjarnafæðideildar KDN fór fram í Boganum í kvöld. Liðið FC Sopalegir sat hjá í 1. umferðinni og sigraði sinn fyrsta leik í deildinni í kvöld, 3-2 gegn Æskunni. Hin tvö liðin sem hafa unnið sína leiki eru FC Böggur og FC Mývetningar – en þessi tvö lið sitja á toppi deildarinnar með 6 stig eftir fyrstu tvær umferðirnar.
Hati og FC Úlfarnir 010 áttust við í kvöld, en bæði liðin töpuðu sínum leikjum í fyrstu umferðinni. Úlfarnir voru staðráðnir í því að koma sterkir til baka eftir það tap og tóku strax öll völd á vellinum. Þessi leikur reyndist vera mikil einstefna og lyktaði með 16-0 sigri Úlfanna. Ingi Þór Stefánsson og Sigmar Þór Ármannsson gerðu báðir 4 mörk fyrir Úlfana, Kamil Dyszy skoraði 3, Agnar Jörgensen 2 og Anton Björn Christenssen, Ingimundur Norðfjörð og Valþór Atli Guðrúnarson settu allir eitt mark.
Leikur FC Böggur og KS var mjög athyglisverður enda unnu bæði þessi lið góða sigra fyrir viku síðan. Þrátt fyrir að vera jafn allan tímann þróaðist þessi leikur á þann veg að FC Böggur hélt boltanum meira meðan KS voru fastir fyrir og beittu góðum skyndisóknum. Eina mark fyrri hálfleiks kom á 13. mínútu þegar Jón Pétur Indriðason kom FC Böggur í 1-0. Í síðari hálfleik tókst FC Böggur svo að klára dæmið með mörkum frá Jóni Pétri og Birgi Þór Þrastarsyni, og 3-0 sigur FC Böggur á KS því staðreynd.
Æskan og FC Sopalegir mættust í þeim leik sem reyndist sá mest spennandi í kvöld. Mikil barátta einkenndi allan leikinn þar sem leikmenn Æskunnar voru ívið meira með boltann en FC Sopalegir voru aftur á móti virkilega hættulegir í hröðum sóknum. Eftir markalausan fyrri hálfleik fór allt af stað í þeim síðari. Á 35. mínútu kom Viktor Andrésson Æskunni yfir, 1-0. FC Sopalegir svöruðu með þungum sóknum í kjölfarið, en Ingvar Björn Guðlaugsson hafði skorað tvö mörk og komið FC Sopalegum í 2-1 einungis 4 mínútum síðar. Einungis mínútu eftir síðara mark Ingvars varð Æskan fyrir því óláni að skora sjálfsmark, og staðan því orðin 3-1. Þegar 3 mínútur voru til leiksloka minnkaði Ingólfur Stefánsson muninn fyrir Æskuna. Nær komst Æskan ekki og lyktaði leiknum því með góðum 3-2 sigri FC Sopalegra.
Leikur 603 og FC Jattebrä var jafn og spennandi í fyrri hálfleik, en eftir að 603 hafði komist yfir snemma leiks komu leikmenn Jattebrä til baka og leiddu í hálfleik, 3-2. Í síðari hálfleik tók FC Jattebrä svo öll völd á vellinum og vann að lokum verðskuldaðan sigur, 8-2. Ágúst Már Steinþórsson og Ívar Bjarki Malmquist gerðu mörk 603 en fyrir FC Jattebrä var Alexander Arnar Þórisson atkvæðamestur með 5 mörk, en þeir Andri Leó Teitsson, Arnór Ísak Guðmundsson og Kristján Þorvaldsson skoruðu sitt markið hver.
Í lokaleik dagsins mættust Babúska og FC Mývetningur – sem bæði sigruðu leiki sína í fyrstu umferð. Eins og við var að búast var leikurinn því nokkuð jafn. Mývetningar tóku forystuna á 11. mínútu með marki Jóns Þorlákssonar og héldu forystunni fram að hálfleik með vel skipulögðum varnarleik. Í síðari hálfleik bættu Jón Þorláksson og Hjörtur Gylfason við tveimur mörkum fyrir Mývetninga, sem uppskáru að lokum 3-0 sigur.