Kæra knattspyrnuáhugafólk.
Nú er knattspyrnuárið 2022 á enda og nýtt og spennandi ár framundan. Dómarar KDN hafa dæmt hundruði knattspyrnuleikja í sumar og haust, allt frá efstu deild karla og niður í yngstu flokka barna. KDN átti 6 dómara starfandi í efstu deild karla á liðnu sumri auk þess sem Guðgeir Einarsson bankar á dyrnar og dæmdi leik í næst síðustu umferð mótsins. Þetta er frábært úr ekki stærri hóp og vonandi fjölgar mönnum sem ná alla leið.
Annar eins fjöldi var að dæma í efstu deild kvenna og næst efstu deild karla. Virkir dómarar á norður- og austurlandi eru um 20 og eru menn að dæma frá 10-40 leiki í meistaraflokkum á ári. En við viljum alltaf fá fleiri inn og þörfin á dómurum eykst með hverju árinu. Leikjum fjölgar og kröfur til dómara vaxa. Það er frábært tækifæri fyrir menn og konur að taka þátt í þeim frábæra leik sem knattspyrnan er. Félagsskapurinn er frábær og allir tilbúnir að styðja við bakið á hvort öðru þegar á móti blæs.
Þegar þetta er ritað eru búnir 10 leikir í Kjarnafæðimótinu okkar. Það verður svo spilað stíft í janúar og sem dæmi má taka að helgina 21-23 janúar verða spilaðir 8 leikir, sem þýða 24 dómarastörf. Ef veðurguðirnir leyfa þá líkur riðlakeppni mótsins 4.febrúar og strax helgina eftir fer Lengjubikarkeppni KSÍ í fullan gang. Eftir Lengjubikar munu svo liðin í Kjarnafæðimótinu leika til úrslita í mótinu.
Eins og sjá má er af nægu að taka og verkefnin mörg og misjöfn. Ef þú hefur áhuga á að gerast dómari þá skaltu endilega vera í sambandi við okkur. Að lokum vil ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og þakka fyrir árið 2022.
Sjáumst hress á knattspyrnuvöllum von bráðar.
Aðalsteinn Tryggvason
Formaður KDN