Jafntefli hjá Þór 2 og Dalvík/Reyni í skemmtilegum leik

Þór 2 og Dalvík/Reynir mættust í riðli 2 í Kjarnafæðimótinu á sunnudaginn. Leikurinn var jafn og afar spennandi allan tímann. Strax á 2. mínútu leiksins braut Aðalgeir Axelsson ísinn fyrir Þór 2. Þórsarar geystust þá fram í hraða sókn, Aðalgeir slapp einn í gegnum vörn Dalvíkur/Reynis og lagði boltann snyrtilega í netið. Þegar rétt tæpur hálftími var liðinn af leiknum átti Dalvík/Reynir góða sókn upp hægri vænginn, boltinn var sendur út að vítapunkti og þar afgreiddi Pálmi Heiðmann Birgisson boltann vel og jafnaði metin í 1-1. Einungis fjórum mínútum síðar kom Aðalgeir Axelsson Þórsurum aftur yfir með öðru marki sínu, þegar hann átti gott skot af vítateigslínu sem söng í fjærhorninu. Leikmenn Dalvíkur/Reynis voru aftur á móti fljótir að svara fyrir sig því á 38. Mínútu fengu þeir aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Þórs 2. Hár bolti var sendur yfir á fjærstöngina og þar var Kristján Freyr Óðinsson einn og óvaldaður og kláraði færið vel. Staðan í hálfleik var því jöfn, 2-2.

Síðari hálfleikur spilaðist í grundvallaratriðum alveg eins og sá fyrri. Liðin skiptust á að sækja og bæði lið áttu góða spretti. Eftir stutta hornspyrnu Dalvíkur/Reynis á 57. mínútu barst boltinn inn í vítateig Þórs 2 og nokkrir leikmenn komu við boltann áður en Ingvar Gylfason náði til boltans og stýrði honum laglega í markið framhjá markverði Þórs 2. Það tók Þórsara 6 mínútur að jafna metin að nýju. Þeir fengu þá aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Dalvíkur/Reynis, á afar svipuðum stað og aukaspyrna þeirra bláklæddu þegar þeir skoruðu annað mark sitt. Aukaspyrnan var vel tekin og barst yfir á fjærstöngina þar sem Hermann Helgi Rúnarsson mætti og stangaði boltann í netið. Eftir þetta fengu bæði lið ágætis færi til að stela stigunum þremur en það var kannski í samræmi við gang leiksins að hvorugu liðinu tókst það og þau sættust á skiptan hlut í jöfnum, spennandi og prúðmannlega leiknum knattspyrnuleik. Lokatölur 3-3.

Þór 2 3 – 3 Dalvík/Reynir

1-0 2’ Aðalgeir Axelsson
1-1 30’ Pálmi Heiðmann Birgisson
2-1 34’ Aðalgeir Axelsson
2-2 38’ Kristján Freyr Óðinsson
2-3 57’ Ingvar Gylfason
3-3 63’ Hermann Helgi Rúnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *