Fótboltaárið 2026 fer á fullt

Nú þegar nýtt ár er gengið í garð og konfektskálin komin í kassann tökum við hversdagsleikanum fagnandi. Nú fer tímabilið formlega að fara af stað hjá mörgum og er þetta tíminn þar sem grunnurinn fyrir nýjar sögulínur er mótaður. Þetta er stór helgi í Kjarnafæðimótinu þar sem riðlakeppni klárast í þremur riðlum og línur því heldur betur farnar að skýrast. Við erum með 7 leiki og hugsanlega 1 á Húsavík ef vetur konungur setur ekki strik í reikninginn.

Föstudagurinn 9. Janúar

Á föstudaginn fara fram tveir leikir í B deildum mótsins en báðir leikirnir fara fram í Boganum. Klukkan 19:00 fer fram leikur í A riðli þar sem KA 3 tekur á móti Tindastól. Með sigri þeirri gulklæddu jafna þeir KF á stigum. Sama gildir um Tindastól sem hefur þó aðeins spilað einn leik. Klukkan 21:00 hefst svo leikur Hamranna og Þór 3. Er þetta loka leikur beggja liða í riðilnum en fyrir leikinn eru Hamrarnir í 2. sæti með þrjú stig en Þór 3 í 3. sæti með tvö stig. Geta liðin því átt sætaskipti með sigri Þórs en sigur hjá öðru hvoru liðinu færir það tímabundið í 1. sæti fyrir ofan lið Hattar. Riðillinn er því enn galopinn fyrir þessa loka umferð.

Laugardaguinn 10. Janúar

Á laugardaginn ætlum við að hefja daginn snemma og það á Húsavíkurvelli. Klukkan 12:00 fer fram leikur Völsungs og KA í A riðli A deildar,verði vetur konungur okkur hliðhollur. Annars fer leikurinn inn í Bogann kl 19. Haddi vonast til að hans heimaslóðir gefi honum og hans liði auka kraft en KA verður að vinna og vonast eftir hagstæðum úrslitum í leik Þórs 2 og Dalvíkur til þess að sigra riðilinn. Sömu sögu er að segja um Völsunga en með sigri komast þeir tímabundið upp í 1. sæti og geta sent KA í 3-4 sæti riðilsins. Patrick De Wilde,nýr þjálfari Völsungs tók fyrsta flug nýs árs frá Belgíu og er búinn að leggja línurnar fyrir sína menn í nokkra daga. Við ætlum næst að færa okkur til Akureyrar en klukkan 15:00 hefst leikur KA4 og Hattar í Boganum. Er þetta loka leikur B riðils í B deildar. Með hagstæðum úrslitum í leik Hamranna og Þórs 3 er möguleiki að Höttur sé þegar búið að tryggja sér sigur í riðlinum en KA 4 geta á sama tíma jafnað topplið Hattar á stigum með sigri. Höttur ætlar sér hinsvegar ekki að gefa neitt eftir og mun Todor Hristov þjálfari þeirra fljúga frá Vestmannaeyjum til að ná leiknum og fara aftur til eyja samdægurs. Metnaður sem vert er að hrósa! Þriðji leikur dagsins fer einnig fram í Boganum hefst klukkan 17:00. Hefst þá leikur Þórs og KFA í B riðli A deildar. Með sigri jafna Þórsarar lið Magna á stigum en stela af þeim topp sætinu á markatölu. Á sama tíma getur lið KFA með sigri tekið 2. sæti riðilsins af KA 2 og sent lið Þórs á botn B riðils. Það sýnir hversu stutt er á milli.

Sunnudagurinn 11. Janúar

Klukkan 12.00 mætir Alli Jói með stelpurnar í Þór/KA í Bogann og mætir sínum fyrrum leikmönnum í Völsungi. Völsungar eru að spila sinn fyrsta leik í riðlinum. Stóðu þær sig vel síðasta sumar og fóru í A-úrslit 2. deildar. Mikið er um efnilegar stelpur á Húsavík og verður því spennandi fyrir þær að máta sig gegn Bestudeildarliði Þórs/KA. Á sunnudeginum fer fram annar leikur en það er loka leikur A riðils A deildar þegar Þór 2 mæta Dalvíkingum. Með sigri getur Þór 2 tryggt sér sigur í A riðli en Dalvíkingar geta lyft sér upp í 2-3 sætið. Fer leikurinn fram í Boganum klukkan 17:00. Við hvetjum alla til þess að strengja áramótaheit að mæta oftar á völlinn þetta árið og byrjum við að sjálfsögðu hér