Magni og KA2 áttust við í Boganum á miðvikudagskvöldið. Mikið var í húfi því toppsæti riðilsins og sæti í undanúrslitum mótsins var í boði fyrir sigurvegarann.
Markavélin Gunnar Darri Bergvinsson kom Magna yfir eftir 30 sekúndna leik eftir vel skipulagða upphafssókn. Jafnræði var með liðunum eftir markið en Tómas Örn Arnarson tvöfaldaði forrustu Magnamanna á 22.mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. Gunnar Darri skoraði sitt annað mark á 51.mínútu en meiddist við það og yfirgaf völlinn.
KA menn sóttu nokkuð ákveðið en náðu ekki að skapa sér bitastæð marktækifæri. Viðar Már Hilmarsson setti síðasta naglann í kistu KA manna með því að skora fjórða mark Magnamanna á 61.mínútu en Andri Valur Finnbogason minnkaði muninn á 72.mínútu úr vítaspyrnu. KA menn hresstust við markið en komust ekki lengra og Magnamenn tylltu sér á topp riðilsins og eru komnir í undanúrslit. Þórsarar geta hinsvegar komist upp fyrir þá á markatölu með sigri á KFA um helgina
Myndir: Þorsteinn Stefán Jónsson


















































