KA vann stórsigur á Völsungi

KA og Völsungur spiluðu sína fyrstu leiki í Kjarnafæðimótinu þegar þau mættust í Boganum. KA-menn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum án þess að skapa sér góð marktækifæri, og var því markalaust þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Í síðari hálfleiknum opnuðust aftur á móti flóðgáttir í vörn Völsungs og KA-menn gengu á lagið. Á 51. mínútu kom Bjarni Aðalsteinsson KA í 1-0 með stórglæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. Hann endurtók leikinn mínútu síðar þegar KA-menn fengu aukaspyrnu á svipuðum stað og setti boltann í netið. Húsvíkingar lögðu þó ekki árar í bát og Daníel Már Hreiðarsson minnkaði muninn í 2-1 á 58. mínútu.

Eftir þetta skiptust liðin á að sækja þótt KA-menn væru ívið sterkari aðilinn. Bjarni Aðalsteinsson fullkomnaði þrennuna á 77. mínútu eftir laglegt samspil KA-manna. Þá var komið að Steinþóri Frey Þorsteinssyni sem skoraði tvö góð mörk á 85. og 86. mínútu, og að lokum skoraði Gunnar Örvar Stefánsson 6. mark KA-manna eftir flott einstaklingsframtak á 89. mínútu. Leikurinn var prúðmannlega leikinn og einungis eitt gult spjald fór á loft. Niðurstaðan varð 6-1 sigur KA.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *