Kjarnafæðimótið hélt áfram í dag með tveimur leikjum.
Í fyrri leik dagsins áttust við Völsungur 2 og Þór 3. Völsungar voru sterkari aðilinn í byrjun og Tryggvi Grani Jóhannsson kom þeim yfir með skallamarki á 16.mínútu.
Þannig stóðu leikar allt fram á 59.mínútu þegar Kjartan Ingi Friðriksson jafnaði úr vítaspyrnu fyrir Þórsara.
Hinn 14 ára gamli Jón Helgi Brynjúlfsson kom Völsungum aftur yfir á 72.mínútu og Andri Valur Bergmann Steingrímsson,16 ára gulltryggði sigur Húsvíkinga á 88.mínútu.
Þess má til gamans geta að hann er sjötti bróðirinn til að leika og skora í Kjarnafæðimótinu í gegnum tíðina og hlýtur það að fara að nálgast eitthvað met. Bræður hans eru Sveinbjörn sem er hættur ,Guðmundur Óli sem nú þjálfar Magna,Hallgrímur Mar leikmaður KA, Ólafur Jóhann leikmaður Völsungs og Hrannar Björn leikmaður KA.
Í seinni leik dagsins áttust við KA2 og Dalvík/Reynir. Dagbjartur Búi Davíðsson skoraði fyrsta mark leiksins fyrir KA á 34.mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Hann tvöfaldaði forustuna beint úr hornspyrnu á 50.mínútu en Viktor Daði Sævaldsson minnkaði muninn fyrir Dalvíkinga á 73.mínútu.
Viktor Breki Hjartarson gulltryggði svo sigur KA2 á 84.mínútu og úrslit leiksins 3-1 fyrir KA2