Öruggur sigur KA í eina leik helgarinnar

Einn leikur fór fram í Kjarnafæðimótinu í kvöld og var það síðasti leikur A riðils A deildar.
Þar áttust við KA og Magni í frestuðum leik sem loksins tókst að koma á.

KA menn voru talsvert sterkari aðilinn í kvöld eins og við mátti búast og skoraði Harley Willard fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu á 10.mínútu. Elfar Árni Aðalsteinsson tvöfaldaði forustuna á 14.mínútu og skoraði svo aftur á 24.mínútu. Daníel Hafsteinsson skoraði svo á markamínútunni frægu og héldu liðin til búningsklefa í stöðinni 4-0 fyrir KA.

Fátt markvert gerðist í seinni hálfleik en Magnamenn voru þá mun sprækari og betur spilandi, á sama tíma og KA skipti ungum leikmönnum inná.
Ásgeir Sigurgeirsson skoraði síðasta mark leiksins á 69.mínútu og þar við sat.
5-0 sigur KA og fara þeir taplausir í gegnum riðilinn eins og síðustu ár. Þeir mæta Þórsurum í úrslitaleik mótsins í mars.