Öruggur sigur Þórs á Tindastóli

Þórsarar og Tindastóll mættust í lokaumferð Kjarnafæðimótsins. Þórsarar voru ekki lengi að taka leikinn föstum tökum. Eftir tæplega fimm mínútna leik skoraði Admir Kubat af stuttu færi fyrir Þór eftir hornspyrnu. Tveimur mínútum síðar fékk Jakob Snær Árnason annað gott færi eftir hornspyrnu en Arnar Þór Stefánsson í marki Tindastóls sá við honum. Þá átti Sveinn Elías Jónsson gott skot að marki Tindastóls á 15. mínútu en varnarmaðurinn sterki Bjarki Már Árnason komst fyrir skotið.

Þórsurum tókst svo að tvöfalda forystuna á 18. mínútu. Alexander Ívan Bjarnason tók þá aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig Tindastóls sem Arnar í marki Tindastóls varði, en Ármann Pétur Ævarsson hirti frákastið og skoraði af öryggi. Ármann var svo aftur á ferðinni á 27. mínútu en skalli hans hafnaði í stöng eftir fyrirgjöf Sveins Elíasar. Fjórum mínútum fyrir lok fyrir hálfleiks skoraði Jón Óskar Sigurðsson þriðja mark Þórs með góðu skoti fyrir utan vítateig. Staðan var 3-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur var afar bragðdaufur, Þórsarar voru mun meira með boltann og tókst leikmönnum Tindastóls ekki að skapa sér marktækifæri. Á 59. mínútu fékk Ármann Pétur Ævarsson stungusendingu innfyrir vörn Tindastóls og rennir boltanum af öryggi í mark Tindastóls. Það var svo nýr leikmaður Þórs, Stefan Lamanna, sem skoraði fimmta og síðasta mark Þórsara í leiknum af stuttu færi. Leiknum lauk því með verðskulduðum 5-0 sigri Þórs.

Úrslit leiksins þýða að KA-menn eru Kjarnafæðimótsmeistarar 2018. KA og Þór enda mótið því jöfn með 13 stig en KA vinnur mótið á betri markatölu.

Tölfræði

Þór – Tindastóll
Leikbrot 5 – 12
Skot 12 – 0
Skot á mark 7 – 0
Hornspyrnur 11 – 1
Rangstöður 1 – 0

Þór 5 – 0 Tindastóll

1-0 5’ Admir Kubat
2-0 18’ Ármann Pétur Ævarsson
3-0 41’ Jón Óskar Sigurðsson
4-0 59’ Ármann Pétur Ævarsson
5-0 81’ Stefan Lamanna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *