Þórsarar gjörsigruðu KA 6-1 og eru Kjarnafæðimeistarar 2017

Úrslitaleikurinn byrjaði nokkuð rólega, og ljóst að liðin voru að þreifa hvort á öðru og tóku ekki mikið af áhættum. KA-menn skoruðu mark á 16. mínútu sem var dæmt af vegna rangstöðu Eftir að liðin höfðu skipst á að sækja dró fyrst til tíðinda á 28. mínútu þegar Steinþór Freyr Þorsteinsson fékk beint rautt spjald fyrir glórulausa tæklingu á leikmann Þórs, svo KA-menn þurftu að spila síðasta klukkutíma leiksins manni færri. Þórsarar voru ekki lengi að nýta sér liðsmuninn því tveimur mínútum síðar átti Sveinn Elías Jónsson glæsilega sendingu fyrir mark KA-manna sem Ármann Pétur Ævarsson skallaði í markið. Þórsarar höfðu yfirhöndina í leiknum í kjölfar rauða spjaldsins, og leikurinn breyttist talsvert. Þegar komið var fram í uppbótartíma átti Almarr Ormarsson skalla naumlega framhjá marki Þórs. Rétt áður en flautað var til hálfleiks brunuðu Þórsarar fram í sókn, og Aron Kristófer Lárusson sendi boltann á Ármann Pétur Ævarsson sem tvöfaldaði forystu Þórsara með föstu skoti, óverjandi fyrir Srdan Rajkovic í marki Þórs. Þórsarar fóru því með góða stöðu til búningsherbergja í hálfleik – tveimur mörkum yfir og manni fleiri.

Þórsarar létu kné fylgja kviði og byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti. Á 47. mínútu tók Aron Kristófer Lárusson aukaspyrnu úti á kannti fyrir Þórsara. Boltinn fór framhjá öllum leikmönnum á vítateig KA-manna og beint í netið, glæsilegt mark og staðan orðin 3-0. Þremur mínútum síðar átti Jónas Björgvin Sigurbergsson fast skot að marki KA-manna sem Srdan Rajkovic varði, en Gunnar Örvar Stefánsson hirti frákastið og skoraði af öryggi fjórða mark Þórsara. Það var síðan á 57. mínútu sem Sveinn Elías Jónsson átti sendingu fyrir markið sem rataði beint á Ármann Pétur Ævarsson. Ármanni urðu ekki á nein mistök og tryggði þrennuna með fimmta marki Þórsara. Á þessum tímapunkti var ljóst að Þórsarar myndu gjörsigra KA-menn og spurningin var eingöngu hversu stór sigurinn myndi verða. Yfirburðir þeirra voru gríðarlega miklir. Á 73. mínútu tókst Archange Nkumu þó að laga stöðuna fyrir KA-menn. Eftir hornspyrnu barst boltinn inn í vítateig Þórsara og Archange skoraði með föstu skoti upp í þaknetið. KA-menn voru augljóslega mjög pirraðir þegar leið á leikinn. Á 83. mínútu fékk Aleksandar Trninic sem sat á varamannabekk KA-manna að líta rauða spjaldið – en honum hafði verið skipt útaf í hálfleik. Það var síðan á fjórðu mínútu í uppbótartíma sem Tómas Örn Arnarson gulltryggði 6-1 stórsigur Þórsara á nágrönnum sínum með þrumufleyg fyrir utan vítateig. Þórsurum tókst því að verja Kjarnafæðititilinn, en þetta er í annað skipti á jafn mörgum árum sem þeir sigra KA-menn í úrslitaleik.

Maður leiksins: Ármann Pétur Ævarsson (Þór)

1-0 30. mín Ármann Pétur Ævarsson
2-0 45+3. mín Ármann Pétur Ævarsson
3-0 47. mín Aron Kristófer Lárusson
4-0 50. mín Gunnar Örvar Stefánsson
5-0 57. mín Ármann Pétur Ævarsson
5-1 73. mín Archange Nkumu
6-1 90+4. mín Tómas Örn Arnarson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *